Þunglyndi og kvíði

Sæl/l
Ég á 14 ára gamla dóttur sem er hrikalega þunglynd, námserfiðleikar, hætt að mæta í skólann, hún hefur minna en ekkert sjálfsálit, búin að koma sér undan öllu félagslífi og einangrar sig alveg. Ég er búin að fara til skólahjúkrunarfræðings, tala við 2 lækna og eina svarið er hún þarf sálfræðing og á vegum skólans en það eru liðnir 2 mánuðir og ég er alveg búin með alla þolinmæði.. hvenar er þörf á að gefa þetta veikum einstaklingi lyf til að slá á þetta?? Þeir (læknarnir) vita að það að hún hefur íhugað sjálfsvíg, og annar læknirinn horfði á hana og fullyrti það við hana að það væri ekkert að henni, hún væri í flottum fötum, með flotta klippingu og fína foreldra og hún ætti bara að spá í krökkunum í afríku sem ættu miklu erfiðara en hún.. Ég viðurkenni það fúslega að ég er alveg búin á því að horfa upp á barnið veslast upp.. Hvað á ég að gera ???
Kv Mamman

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Lyf ein og sér duga sjaldnast en þau geta vissulega hjálpað. Fyrst og fremst þarf að komast að rót vandans og vinna með hann og hjálpa dóttur þinni að finna leiðir til þess að leysa úr því. Það er einmitt hlutverk sálfræðinga og ef það gengur vel er lyfjagjöf óþörf.

Þið þarfið ekki að bíða eftir skólasálfræðingi, þið megið bóka sjálfar tíma en það kostar vissulega meira. Kosturinn er hins vegar sá að þá getið þið valið aðila sem dóttir þín er tilbúin til þess að ræða við.

Ég hvet ykkur til þess að halda samt áfram að tala við skólann og heilsugæsluna.

Sumir foreldrar hafa haft gagn af því að tala við sinn prest.  Sálgæsla er mikilvægur þáttur í þeirra starfi auk þess sem þeir þekkja vel ýmsar leiðir. Þú þarft líka ða gæta að sjálfri þér og geta rætt við einhvern um þína líðan í öllu þessu verkefni.

Gangi ykkur vel

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur